Heim | Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar2020-05-18T12:46:47+00:00

Vestmannaeyjar eru eyjaklasi suður af Íslandi. Þær samanstanda af 15 eyjum og 30 skerjum og dröngum. Heimaey er eina byggða eyjan allt árið um kring.

Elstu heimildir um Vestmannaeyjar eru hvorki meira né minna en í Landnámu og þar í frásögninni um Ingólf Arnarson, sem er, eins og við vitum vonandi öll, fyrsti landsnámsmaður Íslands. Ingólfur kastaði út öndvegissúlunum sem leiddu hann að lokum í ógöngur (til Reykjavíkur). En áður en hann gerði þau mistök að setjast að í Reykjavík dvaldist hann einn vetur á Ingólfshöfða. Þaðan gerði hann út í leit að öndvegissúlunum og fann á ferðum sínum einn daginn Hjörleif, fósturbróður sinn, látinn.

Það voru írskir þrælar Hjörleifs sem höfðu vegið hann og Ingólfur sá þá stefna í átt að eyjaklasa suður af Landeyjum. Á þessum tíma kölluðu norrænir menn Íra Vestmenn og því fengu eyjarnar nafnið Vestmannaeyjar. Svo elti Ingólfur þrælana uppi og drap þá. Þessi dráp þóttu svo geggjuð að mörg örnefni á eyjunum eru gefin eftir þeim: Helgafell er nefnt eftir Helga sem var þar veginn, Duftþekja í Heimakletti er nefnd eftir þrælnum Duftþaki, því hann er sagður hafa stokkið þaðan niður þegar Ingólfur var að reyna að höggva hann.

Fyrsti landnámsmaður eyjanna er hinsvegar Herjólfur Bárðarson. Hann bjó í Herjólfsdal. Hann er mögulega fyrsti maðurinn sem skemmti sér í Herjólfsdal. Alls ekki sá síðasti. Föst búseta í Vestmannaeyjum hófst um 920 en fram að þeim tíma vildi enginn vera þar yfir veturinn en, samkvæmt Sturlubók, var þar veiðistöð og hafa Eyjamenn veitt meira og minna allt síðan þá.

Fram á miðja 12. öld voru eyjarnar í eign bænda. Rétt eftir árið 1400 komust Vestmannaeyjar í einkaeign Noregskonungs og síðar Danakonungs. Eyjarnar voru sérstakt lén og ríktu þar jafnvel önnur lög en á Íslandi. Þannig hefur það haldist síðan – það eru að minnsta kosti önnur lögmál sem ríkja í Vestmannaeyjum.

Vestmannaeyjar voru í konungseign út allar miðaldir til ársins 1874 og voru þær alla tíð stærsta tekjulind krúnunnar. Við viljum endilega að fleiri Íslendingar hafi þessa staðreynd í huga.

Íbúafjöldi Vestmannaeyja hefur tekið þrjár stórar dýfur í gegnum aldirnar. Fyrst var um helmingsfækkun að ræða þegar um þrjú hundruð manns voru numin á brott í Tyrkjaráninu árið 1627. Öðru sinni var vegið að eyjaskeggjum í ungbarnadauðanum á 18. öld. Svo var það á 20. öldinni í Heimaeyjargosinu árið 1973 þegar á meira en 6 mánaða skeiði bjuggu eingöngu um 200 manns á Heimaey, en þegar gosið hófst voru þeir um 5.100.

Nú er bæjabúar um 4.300 og hafa aldrei verið hressari.

Áhugaverðir staðir