Stafkirkjan í Vestmannaeyjum er glæsileg smíð en hún var gjöf frá Norðmönnum, reist í tilefni af 1000 ára kristnitökuafmæli Íslendinga árið 2000. Norðmenn vönduðu mjög til verksins við smíði hennar en í henni er hver einasta fjöl handunnin og timbrið sérvalið.

Stafkirkjan stendur á Skansinum en hún er eftirmynd af fyrstu kirkjunni í Vestmannaeyjum sem byggð var rétt fyrir kristnitöku árið 1000 af sendimönnum Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs. Þeir höfðu einnig það hlutverk að kristna Íslendinga.

Messað er í Stafkirkjunni nokkrum sinnum á ári, auk þess að kirkjan er oft notuð við athafnir á borð við brúðkaup. Þá er hefð fyrir því að halda messur þar til að minnast upphafs og loka eldgossins í Eyjum.