Tilkomumikið er að ganga meðfram Ofanleitishamri en hann er norðan við Breiðabakka sem tekur við af Klaufinni. Frá hamrinum má fylgjast með sjófuglum og jafnvel háhyrningum sem eiga það til að sjást í fæðuleit vestur af Heimaey.

Á þessari gönguleið er jafnframt mjög fallegt að horfa til úteyjanna, suður að Stórhöfða og til smáeyjanna og Fílsins vestan í Blátindi. Fíllinn er einkar falleg bergmynd af fílshaus sem virðist vaða með ranann í sjónum til vesturs út frá Blátindi.

Við rætur Blátinds er golfvöllur Vestmannaeyja og þar við strandlengjuna er jafnframt að finna Mormónapoll og Kaplagjótu. Gaman er að ganga frá Herjólfsdal að Kaplagjótu og ganga því næst með Ofanleitishamrinum suður eftir Heimaey.