Húsið Landlyst er með þeim elstu í Vestmannaeyjum en það byggðu hjónin Matthías Markússon snikkari og Sólveig Pálsdóttir ljósmóðir árið 1848. Húsið gegnir merkilegu hlutverki í sögu Eyjamanna. Við það var fyrsta fæðingarstofa landsins byggð með styrk frá danska ríkinu en Sólveig hafði farið til Danmerkur og lært þar til ljósmóður. Síðarmeir var Bókasafn Vestmannaeyja til húsa í Landlyst, fyrstu níu árin eftir stofnun þess árið 1862.

Húsið var friðað árið 1990 og í framhaldinu tekið niður til geymslu og viðgerðar. Árið 2000 var það svo endurreist og því komið fyrir á Skansinum, þar sem það stendur í sinni upprunalegu mynd. Nú hýsir það heilbrigðisminjasafn.