Austan við Heimaklett er Klettsvík. Hægt er að ganga niður í víkina með því að fara upp Heimaklett, ganga eggjarnar í Miðkletti og fara því næst niður sandskriðurnar í Ystakletti. Leiðin er erfið yfirferðar og ekki mælt með því að ókunnugir fari hana nema í félagsskap einhvers sem vel þekkir til. Til að komast inn í Klettsvík nota heimamenn margir tuðrur og nota þá gjarna tækifærið og sigla í leiðinni inn í einn vinsælasta sjávarhelli Heimaeyjar, Klettshelli í Ystakletti.