Heimaklettur er einn vinsælasti áfangastaður fjallagöngumanna í Vestmannaeyjum. Hann er hæstur fjalla þar og rís í 283 metra hæð yfir sjávarmáli. Stigi liggur upp erfiðasta hjallann, sem auðveldar vissulega aðgengi, en þrátt fyrir hann er ekki þrautalaust að komast á topp Heimakletts.

Óvönu göngufólki og þeim sem ekki þekkja til í Eyjum er ráðlagt að leggja upp í gönguna í fylgd einhvers sem þekkir aðstæður. Þegar á toppinn er komið er næsta víst að göngufólk verður ekki fyrir vonbrigðum. Þar er útsýni stórfenglegt og á björtum dögum sést vel upp á meginlandið.

Heimaklettur er móbergsstapi sem varð til við gos undir jökli seint á síðustu ísöld. Hann stendur sæbrattur upp úr sjónum en efst eru grasivaxnar brekkur á bólstrabergstoppi þar sem fé er haft á beit. Á toppi fjallsins er gestabók og er fólk eindregið hvatt til að kvitta fyrir komuna.